Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 160/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 160/2022

Miðvikudaginn 29. júní 2022

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 21. mars 2022, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 22. febrúar 2022 vegna umgengni hennar við dóttur sína, D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er rúmlega X ára gömul og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærandi er kynmóðir stúlkunnar.

Foreldrar stúlkunnar voru svipt forsjá hennar með dómi Héraðsdóms B þann 2. júlí 2021 sem var staðfestur í Landsrétti þann 4. nóvember 2021. Stúlkan er í varanlegu fóstri og hefur verið í umsjá fósturforeldra sinna frá því í apríl 2021, fyrst í tímabundnu fóstri og svo í varanlegu fóstri frá því í nóvember 2021.

Mál stúlkunnar vegna umgengni við kæranda var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 15. febrúar 2022. Málið var tekið til úrskurðar og úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að D, njóti umgengni við móður sína, A, þrisvar á ári í alls þrjár klukkustundir í senn. Umgengni fari fram í húsnæði á vegum Barnaverndar B undir eftirliti. Fósturforeldrum er frjálst að vera viðstaddir umgengni kjósi þeir svo. Skilyrði umgengni er að móðir sé edrú og í andlegu jafnvægi að mati eftirlits aðila.“

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. mars 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. mars 2022, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst 12. apríl 2022 og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. apríl 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir aðallega þá kröfu að úrskurður Barnaverndarnefndar B verði hrundið að öllu leyti, sbr. 4. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.), og að kæranda verði veitt umgengni við dóttur sína sex sinnum á ári, í sex klukkustundir í senn, án eftirlits.

Kærandi byggi afstöðu sína á því að henni beri ríkari réttur til umgengni við dóttur sína á þeim forsendum að kærandi sé bandarískur ríkisborgari og það sé mikilvægt að barnið fái að kynnast menningararfleifð sinni og uppruna með því að vera í meiri umgengni við kæranda heldur en úrskurðurinn kveði á um.

Kærandi sé í meðferð í E. Kærandi ætli að óska eftir endurskoðun forsjársviptingarinnar fyrir dómi á grundvelli 34. gr. bvl. þegar tímamörk eigi við og hún hafi náð bata í sinni áfengisneyslu. Matsgögn sem hafi verið lögð til grundvallar forsjársviptingu hafi borið með sér að áfengisvandi væri sá þáttur sem stæði í vegi fyrir því að kærandi næði bata og gæti unnið með sína persónuleikabresti.

Kærandi hafi lagt inn kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna úrlausnar dómstóla um forsjársviptingu. Kærandi telji það fyrirkomulag á umgengni sem verði viðhaft standa í vegi fyrir því að fjölskyldan geti sameinast á ný.

Í kæru er vísað til sameiningar fjölskyldu. Þar segir að í 1. mgr. 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sé orðuð sú meginregla að barn eigi, eftir því sem unnt sé, rétt til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra. Af 1. mgr. 8. gr. MSE hafi verið ráðið að barnaverndaryfirvöldum væri ávallt skylt að horfa til ráðstafana sem gætu stuðlað að sameiningu fjölskyldunnar aftur, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Margaret og Roger Anderson gegn Svíþjóð. Með þessu áframhaldi, þ.e. að kærandi fái einungis að umgangast stúlkuna þrisvar á ári í tvo tíma, þá séu fjarstæðar líkur á því að umrædd fjölskylda sameinist á ný.

Kærandi tekur fram að það sé réttur stúlkunnar að þekkja uppruna sinn. Kærandi sé fædd og uppalin í F þar sem hún hafi búið þar til hún hafi orðið X ára gömul. Mikilvægt sé að stúlkan fái að kynnast ólíkum menningarheimi móðurættar sinnar. Með auknum umgengnisrétti fái kærandi þannig tækifæri til þess að kynna fyrir stúlkunni uppruna hennar.

Kærandi telji það andstætt meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að takmarka umgengni með þessu móti, þ.e. að hún fái einungis að hitta stúlkuna þrisvar á ári, í þrjár klukkustundir í senn, undir eftirliti. Að mati kæranda sé um að ræða meira íþyngjandi takmörkun á umgengni hennar og á réttindum barna til að þekkja móður sína en þörf sé á. Sú beiðni kæranda um umgengni við stúlkuna sex sinnum á ári, í sex klukkustundir í senn, án eftirlits, sé hófleg. Kærandi hafi verið aðalumönnunaraðili stúlkunnar fyrstu ár hennar og því séu sterk tengsl þeirra á milli. Aukin umgengni væri tækifæri fyrir mæðgurnar til að kynnast enn betur og styrkja tilfinningasamband sitt. Jafnframt þyki það eðlilegt að kærandi fái að umgangast dóttur sína eftirlitslaust, enda hafi ekkert komið fram í umgengni sem gefi tilefni til annarrar niðurstöðu en þeirrar að kærandi hafi hagsmuni dóttur sinnar að leiðarljósi og hugi vel að henni og þörfum hennar.

Kærandi tekur fram að aukin umgengni hennar við dóttur sína sé ekki bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og alls ekki ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með fóstrinu samkvæmt 74. gr. bvl.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Barnaverndarnefnd B gerir þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að um sé að ræða D, rúmlega X ára gamla stúlku, sem lúti forsjá Barnaverndarnefndar B. Foreldrar stúlkunnar hafi verið sviptir forsjá hennar með dómi Héraðsdóms B þann 2. júlí 2021. Dómur héraðsdóms hafi verið staðfestur í Landsrétti þann 4. nóvember 2021.

Þann 22. febrúar 2022 hafi Barnaverndarnefnd B úrskurðað um að kærandi ætti umgengni við stúlkuna þrisvar á ári, í þrjár klukkustundir í senn. Umgengni færi fram í húsnæði Barnaverndar B undir eftirliti. Fósturforeldrum væri frjálst að vera viðstaddir umgengni. Skilyrði fyrir umgengni væri að kærandi væri edrú og í andlegu jafnvægi, að mati eftirlitsaðila.

Þann 10. desember 2021 hafi lögmaður kæranda sent beiðni til Barnaverndar B um aukna umgengni kæranda við stúlkuna. Kærandi hafi óskað eftir að umgengni yrði aukin í sex skipti á ári, sex klukkustundir í senn. Fjallað hafi verið um beiðni kæranda um aukna umgengni á meðferðarfundi starfsmanna barnaverndar þann 5. janúar 2022. Starfsmenn hafi lagt til að umgengni stúlkunnar við móður yrði þrisvar sinnum á ári, í tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti starfsmanna og í húsnæði á vegum barnaverndar. Í bókun starfsmanna komi fram að staða kæranda hafi versnað til muna frá því að börnin hafi farið úr hennar umsjá í október 2020. Kærandi hafi misst húsnæði sitt vorið 2021 og verið að miklu leyti húsnæðislaus frá þeim tíma. Kærandi hafi þá reglulega verið lögð inn á […] Landspítala og farið í meðferð á […] en ekki lokið meðferð. Í upplýsingum frá lögreglu þann 15. desember 2021 komi fram að regluleg afskipti hafi verið af henni undanfarna mánuði vegna ölvunar, annarlegs ástands og óspekta.

Vegna ungs aldurs stúlkunnar hafi henni ekki verið skipaður talsmaður. Afstöðu fósturforeldra til óska móður um umgengni hafi verið aflað, sbr. 74. gr. a. bvl. Fósturforeldrar telji mikilvægt að stúlkan fái umgengni við kæranda og þekki hana en telji að umgengni stúlkunnar við kæranda sé hæfileg ekki oftar en þrisvar sinnum á ári. Fósturforeldrar telji nauðsynlegt að umgengni verði undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar B og óski eftir að fá að vera til staðar í umgengni til að tryggja að stúlkan upplifi ekki öryggisleysi. Fósturforeldrar stúlkunnar hafi mætt á fund nefndarinnar 15. febrúar síðastliðnum, fjarfund. Hjá fósturmóður hafi komið fram að hún telji mikilvægt að umgengni sé undir eftirliti og að fósturforeldrum sé heimilt að vera í umgengni. Nokkuð væri liðið síðan umgengni hafi átt sér stað og stúlkan væri rólegri og liði betur en áður með vísan til þess að umgengni hafi ekki átt sér stað nýlega.

Í kæru lögmanns kæranda, dags. 21. mars 2022, vísi lögmaður til þess að kærandi byggi afstöðu sína á því að henni beri ríkari réttur til umgengni við dóttur sína á þeim forsendum að kærandi sé bandarískur ríkisborgari og það sé mikilvægt fyrir barnið að fá að kynnast menningararfleifð sinni og uppruna með því að vera í meiri umgengni við kæranda en úrskurður barnaverndarnefndar kveði á um. Lögmaður vísi til þess að kærandi ætli sér að óska eftir endurskoðun forsjársviptingar fyrir dómi á grundvelli 34. gr. bvl. þegar tímamörk eigi við og þegar hún hafi náð bata í sinni áfengisneyslu. Vísi lögmaður þá til sameiningar fjölskyldu, sbr. 1. mgr. 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna, rétt stúlkunnar til að þekkja uppruna sinn, meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og markmiðs fósturs samkvæmt 74. gr. bvl.

Um sé að ræða rúmlega X ára gamla stúlku sem hafi á sinni stuttu ævi búið við alvarlega vanrækslu vegna vanda kæranda. Stúlkan hafi verið í umsjá margra aðila fyrstu æviár sín, hvorki búið við stöðugleika né átt örugg tengsl við umönnunaraðila sem hafi verið margir. Stúlkuna hafi sárvantað stöðugleika og öryggi. Stúlkan hafi farið á núverandi fósturheimili í apríl 2021 og aðlögun stúlkunnar á fósturheimili hafi gengið illa. Í greinargerð sérfræðings, dags. 24. febrúar 2021, segi að stúlkan beri merki þess að glíma við tilfinninga- og tengslavanda. Stúlkan sýni einkenni óöryggis, vanlíðanar og hafi verið í mikilli þörf fyrir stöðugleika og öryggi þegar hún hafi farið í umsjá fósturforeldra sinna.

Sá stöðugleiki sem ríki í lífi stúlkunnar í dag sé afrakstur mikillar vinnu hjá fósturforeldrum. Fósturforeldrar haldi vel utan um mál stúlkunnar og í dag sé vel hugað að þörfum hennar á fósturheimilinu. Ekki sé langt síðan jafnvægi hafi komist á líf stúlkunnar og það sé mat starfsmanna barnaverndar út frá gögnum málsins að mikilvægt sé að fara varlega í allar breytingar á högum hennar hvað varði umgengni. Fyrir úrskurð nefndarinnar þann 22. febrúar 2022 hafi kærandi átt umgengni samkvæmt úrskurði nefndarinnar frá 16. mars 2021. Umgengni hafi þá verið skipulögð á tímabilinu í alls átta skipti og hafi kærandi mætt í sex skipti. Umgengni hafi síðast farið fram 8. október 2021 en sú umgengni hafi verið á Landspítala vegna þess að kærandi hafði verið innlögð á […]. Umgengni hafi verið skipulögð í nóvember 2021 en kærandi hafi afboðað sig og ekki sagst treysta sér til að eiga umgengni við stúlkuna. Starfsmenn barnaverndar hafi reynt að skipuleggja umgengni við kæranda aftur í desember 2021 en kærandi hafi afþakkað það og sagst ekki treysta sér til að hitta stúlkuna.

Umgengni hafi gengið ágætlega þegar hún hafi farið fram en fósturforeldrar stúlkunnar hafi upplýst starfsmenn um nokkra vanlíðan hjá stúlkunni í kjölfar umgengni. Stúlkan hafi þá pissað og kúkað á sig og átt erfitt með svefn næturnar í kjölfar umgengni.

Í kæru lögmanns kæranda komi fram að beiðni kæranda um umgengni við stúlkuna sex sinnum á ári, í sex klukkustundir í senn, án eftirlits, sé hófleg. Að mati Barnaverndarnefndar B séu kröfur kæranda um aukna umgengni ekki í samræmi við markmið varanlegs fósturs og sú umgengni sem kærandi fari fram á sé ekki til þess fallin að búa stúlkunni öryggi og stöðugleika í lífi hennar. Þvert á móti sé hætta á að svo umfangsmikil umgengni geti raskað þeirri ró sem hafi skapast í lífi stúlkunnar. Lögmaður vísi einnig til sameiningar fjölskyldu og vísi lögmaður í 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og 8. gr. MSE um að barnaverndaryfirvöldum sé skylt að horfa til ráðstafana sem gætu stuðlað að sameiningu fjölskyldunnar aftur. Umgengni þurfi að ákvarðast í samræmi við hagsmuni og þarfir barnsins, sbr. 74. gr. bvl. Þá beri að horfa til þess hvaða hagsmuni börn hafi af umgengni við kynforeldra sína. Fari svo að hagsmunir kæranda og stúlkunnar rekist á þá verði hagsmunir kæranda að víkja fyrir hagsmunum stúlkunnar.

Í dag sé stúlkan í varanlegu fóstri og ekki sé stefnt að öðru en að hún alist upp á núverandi fósturheimili. Kærandi hafi verið svipt forsjá stúlkunnar fyrir dómi. Markmið varanlegs fósturs sé að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sinni sem taki að sér uppeldi barnsins. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega.

Umgengni stúlkunnar við móður verði að þjóna hagsmunum barnsins, sbr. 74. gr. bvl. Tilgangur umgengni í varanlegu fóstri sé að barn þekki uppruna sinn en ekki í þeim tilgangi að viðhalda eða mynda ný tengsl. Í athugasemdum við 74. gr. bvl. komi fram að umgengni í varanlegu fóstri kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega: „Markmið fósturs er þá að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður er viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega en árétta ber að meta þarf hagsmuni barnsins í hverju tilviki og sterk rök þurfa að vera fyrir því að hafna umgengni með öllu.“

Lögmaður kæranda vísi til þess í kæru að með aukinni umgengni geti kærandi kynnt stúlkunni uppruna hennar, kynnst henni enn betur og styrkt samband þeirra. Eins og fram hafi komið sé ætlunin með umgengni í varanlegu fóstri ekki að styrkja tengsl heldur að barn þekki uppruna sinn. Í niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 201/2020 þar sem fjallað hafi verið um umgengni kynforeldris við barn sem hafi verið vistað í varanlegt fóstur, komi fram að með umgengni kynforeldris við barnið væri ekki verið að reyna að styrkja tengsl á milli kynforeldris og barns heldur að viðhalda þeim tengslum sem þegar séu fyrir hendi. Barnaverndarnefnd B telji að miðað við stöðu kæranda og gagna málsins þjóni sú umgengni, sem úrskurður nefndarinnar hafi kveðið á um þann 22. febrúar 2022, því að stúlkan þekki uppruna sinn.

IV.  Sjónarmið stúlkunnar

Vegna ungs aldurs stúlkunnar var henni ekki skipaður talsmaður.

V.  Sjónarmið fósturforeldra

Í hinum kærða úrskurði frá 22. febrúar 2022 kemur fram afstaða fósturforeldra en þar segir að fósturforeldrar telji mikilvægt að stúlkan fái umgengni við kæranda og þekki hana en telji að umgengni stúlkunnar við kæranda sé hæfileg ekki oftar en þrisvar sinnum á ári. Þá telji fósturforeldrar nauðsynlegt að umgengni verði undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar B og óska eftir að fá að vera til staðar á meðan stúlkan eigi umgengni við kæranda til að tryggja að stúlkan upplifi ekki öryggisleysi.

Á fundi Barnaverndarnefndar B 15. febrúar 2022 hafi fósturmóðir sagt að mikilvægt væri að umgengni yrði undir eftirliti, þ.e. að stúlkan gæti treyst á að hún gæti leitað til fósturforeldra í umgengni. Fósturmóðir hafi vísað til þess að nokkuð væri liðið frá síðustu umgengni og að stúlkan væri öll miklu rólegri og liði betur en áður.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan D er rúmlega X ára gömul og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærandi, sem er kynmóðir stúlkunnar, var svipt forsjá dóttur sinnar með dómi Héraðsdóms B 2. júlí 2021 sem var staðfestur í Landsrétti 4. nóvember 2021. Stúlkan hefur verið í fóstri frá því í apríl 2021.

Með hinum kærða úrskurði Barnaverndarnefndar B frá 22. febrúar 2022 var ákveðið að kærandi hefði umgengni við stúlkuna þrisvar á ári í alls þrjár klukkustundir í senn. Umgengni fari fram í húsnæði á vegum Barnaverndar B undir eftirliti. Fósturforeldrum er frjálst að vera viðstaddir umgengni, kjósi þeir svo.

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að umgengni verði sex sinnum á ári, í sex klukkustundir í senn, án eftirlits.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn rétt á umgengni við foreldra og aðra sem eru því nákomnir. Foreldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt í fóstri samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni best hagsmunum barnsins. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur umdæmisráð barnaverndar úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni kæranda við stúlkuna á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum stúlkunnar best með stöðu hennar að leiðarljósi, en fóstrinu er ætlað að vara til 18 ára aldurs. Í máli stúlkunnar er því ljóst að ekki er stefnt að því að hún fari aftur í umsjá kæranda. Umgengni kæranda við stúlkuna þarf því að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun hennar í varanlegt fóstur. Því verður að haga umgengni stúlkunnar við kæranda með hliðsjón af því að ekki er verið að reyna styrkja tengsl þeirra enn frekar heldur viðhalda þeim tengslum sem þegar eru fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að stúlkan þekki uppruna sinn.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður að líta til þess hvaða hagsmuni stúlkan hefur af umgengni við kæranda. Stúlkan var í umsjá margra umönnunaraðila fyrstu ár ævi sinnar. Stúlkan hefur verið á núverandi fósturheimili frá því í apríl 2021. Samkvæmt álitsgerð sérfræðings, dags. 24. febrúar 2021, gekk aðlögun stúlkunnar á fósturheimilinu ekki eins vel og væntingar stóðu til. Í álitsgerðinni kemur fram að stúlkan hafi á sinni stuttu ævi upplifað ítrekaða vanrækslu og vistanir utan heimilis og því séu þarfir hennar fyrst og fremst þær að hún búi við fyrirsjáanleika, ró og öryggi. Í greinargerð barnaverndarnefndar kemur fram að sá stöðugleiki sem ríki í lífi stúlkunnar í dag sé afrakstur mikillar vinnu hjá fósturforeldrum. Fósturforeldrar haldi vel utan um mál stúlkunnar og í dag sé vel hugað að þörfum hennar.

Nefndin telur að það séu lögvarðir hagsmunir stúlkunnar að búa við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu og þannig séu þroskamöguleikar hennar best tryggðir til frambúðar. Álíta má að stúlkan hafi orðið fyrir áfallastreituröskun vegna uppeldisaðstæðna sinna í frumbernsku og sé því í sérstakri þörf fyrir að ró og jafnvægi ríki í fóstrinu. Hún þarf svigrúm til að fá að tengjast fósturfjölskyldunni áfram og að umgengni valdi henni sem minnstri truflun. Hagsmunir og þarfir stúlkunnar fyrir öryggi og stöðugleika vegi þyngra en ætluð þörf hennar til að þekkja enn frekar erlendan uppruna sinn með tíðari umgengni en ákveðið hefur verið. Úrskurðarnefndin fellst á sjónarmið Barnaverndarnefndar B og telur að það þjóni hagsmunum stúlkunnar best við núverandi aðstæður að umgengni hennar við kæranda fari fram á þann hátt sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði.

Því verður að telja að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barns í varanlegu fóstri er ákveðin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 22. febrúar 2022 um umgengni D, við A, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum